Starfsemi á Grundartanga

Á Grundartanga starfa um 20 stór og smá iðn- og þjónustufyrirtæki sem veita um 1.100 manns atvinnu að jafnaði, en auk þess má rekja um 1.000 afleidd störf til starfsemi svæðisins. 

 

Fyrirtæki á svæðinu

 


Þróunarfélag Grundartanga ehf. var stofnað 7. júlí 2016. Stofnaðilar voru Hvalfjarðarsveit, Borgarbyggð, Skorradalshreppur, Akraneskaupstaður, Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir. Stofnun félagsins hafði legið í loftinu i töluverðan tíma en viljayfirlýsing um stofnun félagsins var undirrituð í nóvember 2014. Þróunarfélag Grundartanga er sjálfstætt þróunarfélag sem á að sameina krafta sveitarfélaga, Faxaflóahafna og fyrirtækja á atvinnusvæðinu m.a. til að mynda eitt, öflugt atvinnusóknarsvæði.



Hjá Norðuráli á Grundartanga í Hvalfirði starfa um 600 manns, í fjölbreyttum störfum, við framleiðslu á hreinu áli og álblöndum úr áloxíði og rafmagni. Íslenski áliðnaðurinn er ein stærsta útflutningsgrein landsins og ein af grunnstoðum íslensks efnahagslífs.

Norðurál leggur áherslu á að starfsemi fyrirtækisins sé í sátt við umhverfið og stöðugt er unnið að lágmörkun umhverfisáhrifa. Notkun endurnýjanlegrar raforku við framleiðsluna og stöðugleiki í rekstri tryggir að kolefnisspor álsins er með því lægsta sem gerist í heiminum.


Saga Elkem á Íslandi á rætur að rekja til ársins 1979 þegar Íslenska Járnblendifélagið var stofnað. Í dag er Elkem á Íslandi í eigu Elkem AS í Noregi en eigandi þess er Bluestar. Elkem er með þrjá ljósbogaofna sem framleiða kísilmálm. Elkem selur kísilmálm (FeSi) með 65-75% kísilinnihaldi sem blandaður er með járni og er sérhæfður til íblöndunar í stáliðnaði og í járnsteypu um allan heim. Áhersla og aðalframleiðsla fyrirtækisins eru sérhæfðar afurðir sem notaðar eru til framleiðslu á hágæða stálafurðum. Kísilryk er aukaafurð sem myndast við framleiðslu kísilmálms sem Elkem selur sem íblöndunarefni í sement og steypu hérlendis og erlendis. Málmurinn sem framleiddur er á Grundartanga birtist neytendum um allan heim t.a.m. heimilistækja með A+ eða hærri orkunýtingarstuðul, vindmyllur sem framleiða endurnýjanlega orku og svo hjálpar hann rafmagnsbílum að komast lengra. Elkem Ísland leggur metnað í að starfsemi fyrirtækisins sé í sátt við umhverfið og nánasta samfélag. Þess vegna er stefna Elkem Íslands að draga markvisst úr áhrifum starfseminnar á ytra umhverfi og fylgja í hvívetna ákvæðum starfsleyfis. Elkem Ísland vinnur alltaf að stöðugum framförum í störfum sínum sem endurspeglast í metnaði fyrirtækisins í umhverfismálum.



Faxaflóahafnir reka hafnarmannvirkin á Grundartanga og eru einnig lóðahafi víða á og í kringum tangann. Hafnargerð við Grundartanga hófst árið 1977 og er höfnin þar nú á meðal stærstu hafna landsins. Að Grundartanga koma um 300 - 350 skip á ári og sum þeirra býsna stór (þau sem losa súrál til Norðuráls), en Eimskip og Samskip hafa einnig fastar viðkomur til hafnarinnar. Flutningar um Grundartangahöfn á árinu 2017 voru um 40.000 TEU (gámaeiningar) eða um 2 milljónir tonna. 




Lífland ræktar lýð og land. Þjónusta okkar sýnir ræktarsemi við grunnstoðir mannlífs um allt land. Með fjölbreyttu vöruúrvali og vísindalegum vinnubrögðum sköpum við góðan jarðveg fyrir hverskonar rækt; jarðrækt, búfjárrækt, nautgriparækt og hrossarækt. Lífland er markaðsdrifið þjónustufyrirtæki sem leggur áherslu á að uppfylla þarfir og óskir viðskiptavina. Starfsemi fyrirtækisins lýtur annars vegar að þjónustu tengdri landbúnaði og tengist hins vegar hestaíþróttum, dýrahaldi, útivist og þjónustu við matvælaiðnaðinn. 

 


Alur álvinnsla er staðsett á iðnaðarsvæðinu á Grundartanga og felst meginstarfsemin í að taka við álgjalli sem til fellur við frumframleiðslu áls hjá álverinu í Straumsvík og Norðuráli á Grundartanga. Alur hefur verið með starfsemi á Grundartanga frá árinu 2012, en fyrirtækið var stofnað í Helguvík árið 1998. Árleg framleiðsla áls er um 2.500 tonn af áli úr um 5 þúsund tonnum af álgjalli. Fyrirtækið hefur starfsleyfi til þess að taka á moti 15.000 tonnum af álgjalli árlega til ársins 2025.


Bjarmar ehf er alhliða verktakafyrirtæki með vinnuvélar og hefur yfir öflugum tækjaflota að ráða. Fyrirtækið tekur að sér ýmsa þjónustu s.s. jarðvinnu, gatnagerð, flutninga, kranaþjónustu og ýmis sérhæfð verkefni t.d. fyrir iðnfyrirtæki, sveitarfélög og einstaklinga.



HD er sameinað félag Hamars ehf. og Deilis Tækniþjónustu ehf. Fyrirtækið býður breytt vöruúrval og sinnir fjölbreyttri þjónustu. Má í því sambandi nefna tæknilegar ástandsgreiningar véla og sívöktun vélbúnaðar, hönnun, framleiðslu og þjónustu dælu-og lagnakerfa, viðhald á jarðgufutúrbínum og rafölum orkuvera, innflutning á vél- og tæknibúnaði, uppsetningar, varahlutaöflun og aðra þjónustu. Markmið félagsins er að vera fyrsta val viðskiptavina sem þjónustuaðili í vélbúnaði, tækniþjónustu og stálsmíði á landsvísu.



Héðinn hf er með 100 ár farsæla sögu af þjónustu við iðnað og sjávarútveg. Hjá Héðni fer hugvit og handverk saman við fjölbreytt verkefni frá hönnun að fullbúnum vörum og þjónsustu. Höfuðstöðvar Héðins eru á Gjáhellu í Hafnarfirði þar sem starfandi eru stoðdeildir, tæknideild, framleiðsludeildir og skipaþjónusta, allar búnar nútíma tækjakost til að leysa verkefni stór sem smá. Á Grundartanga starfrækir Héðinn þjónustuverkstæði með farsæla reynslu af þjónustu við stóriðju á svæðinu. Þar starfar hópur manna með mikla reynslu af iðnaðinum á svæðinu, tilbúnir að takast á við verkefni stór sem smá er kemur m.a. að viðhaldi vélbúnaðar, uppsetningu á búnaði og nýsmíði.

 



Johan Rönning er þjónustufyrirtæki á sviði rafbúnaðar sem hefur útvegað vörur til rafveitna og rafverktaka frá árinu 1933. Fyrirtækið hefur útvegað búnað í flestar stærri framkvæmdir hér á landi og leggur metnað í að veita fagaðilum framúrskarandi þjónustu.



Klafi ehf var stofnaður árið 2000 af eigendum sínum, Elkem Ísland og Norðurál og eiga félögin fyrirtækið til helminga. Í dag eru helstu verkefni Klafa gámaflutningar fyrir allflest fyrirtækin á Grundartanga, auk móttöku og sleppingu gámaskipa skv. samningi við Faxaflóahafnir. Stærstu viðskiptavinir Klafa eru eigendur þess, Elkem og Norðurál, Faxaflóahafnir, Lífland, Alur, auk skipafélaganna Eimskip og Samskip. Tækjafloti félagsins samanastendur af 4 gámalyfturum og 2 dráttarbílum með vögnum. Lögð er áhersla á traust og fumlaus vinnubrögð þar sem reynsla, öryggi og gæði eru í fyrirrúmi.



Meitill GT Tækni hefur starfað frá árinu 2002 og þjónustar viðskiptavini sína á sviði málma, véla , rafmagns og farartækja. Þetta innifelur framleiðslu, nýsmíði, endurnýjun og uppsetningu búnaðar, breytingar, viðgerða- og viðhaldsverkefni.
Meitill hefur verið Frammúrskarandi fyrirtæki í áraraðirog er með ISO 9001 vottun frá árinu 2012 fyrir véla- og rafmagnssvið og jarðgangaviðhalds. Auk þess er Meitill GT Tækni með lögilta og vottaða suðumenn ásamt því að vera með A og B lögildingu á rafmagnssviði.


 

Múlakaffi var stofnað árið 1962 og er óhætt að segja að fyrirtækið sé rótgróið fjölskyldufyrirtæki. Í dag rekur Múlakaffi eina stærstu veisluþjónustu landsins þar sem stöðugt er leitast við að fara ótroðnar slóðir til þess að koma viðskiptavinum okkar á óvart. Veitingastaðurinn Múlakaffi er hjarta fyrirtækisins og er staðsettur í Hallarmúla. Þar fer öll framleiðslan fram og starfa þar um 30 manns. Fyrirtækjaþjónustan er stór hluti af rekstrinum enda hafa ófá íslensk fyrirtæki verið í áskrift hjá okkur í áratugi, hvort sem um ræðir nokkra matarskammta á dag eða heildarumsjón með veitingarekstur og starfsmannahald.



Rafmiðlun hf er rafverktaka og innflutningsfyrirtæki stofnað 1996. Frá upphafi var markmið að veita alhliða þjónustu og lausnir á sviði rafverktöku hvort sem verkefnin væru stór eða smá. Strax á fyrsta rekstrarári Rafmiðlunar fékk fyrirtækið stórt verkefni fyrir Ísal í Straumsvík og allar götur síðan hafa verkefni tengd iðnaði verið stór þáttur af starfsemi Rafmiðlunar. Má þar m.a. nefna verkefni fyrir Elkem, Norðurál, Orku Nátúrunnar, Veitur, Orkuveitu Reykjavíkur, Ísal, Landsvirkjun og mörg fleiri fyrirtæki sem eru fastir viðskiptavinir. Höfuðstöðvar Rafmiðlunar eru í Ögurhvarfi 8 Kópavogi. Þar er öflugt verkstæði sem er sérhæft í skápasmíði en allt frá stofnun fyrirtækisins hefur skápasmíði í samstarfi við danska fyrirtækið Elsteel verið mjög umfangsmikil og hefur sú starfsemi verið eitt af aðalsmerkjum Rafmiðlunar. Á Grundartanga er Rafmiðlun einnig með verkstæði sem vinnur í nánu samstarfi við stóriðjuna á svæðinu en þar hefur Rafmiðlun verið með þjónustu meira og minna síðan um aldamót.


Búvélaverkstæðið Skipanesi / Hróarstindur ehf. hóf starfsemi sína í ársbyrjun 1996 og hefur aðalstarfssvið verið almennar vélaviðgerðir og járnsmíðaþjónusta auk þess sem fyrirtækið hefur verið að sinna jarðvinnu og flutningaþjónustu. Helstu samstarfsaðilar hafa verið í gegnum tíðina bændur, fyrirtæki, stóriðjur, sveitarfélög og einstaklingar.



Skipavík á rætur sýnar að rekja til ársins 1906 og undir nafni Skipavíkur frá 1973. Í dag er Skipavík í fjölþættum rekstri, rekur slipp, byggingarstarsemi verslun og leigir út húsnæði. Frá árinum 2000 hefur Skipavík haft starfsemi á Grundartanga og í dag rekur þar einnig vélsmiðju. Skipavík veitir fyrirtækjum á Grundartanga fjölbreytta almenna þjónustu.




Snókur
þjónusta ehf starfar á Grundartanga og í Straumsvík við flutninga, umskipanir, efnismeðhöndlun, þrif og almenna vélavinnu fyrir stóriðjufyrirtæki svæðanna. Fyrirtækið er fjölskyldufyrirtæki með höfuðstöðvar að Leynisvegi 6 á Grundartanga. Starfsmenn eru 60. Rík
áhersla er lögð á gæða- öryggis- og umhverfismál.



Terra hefur starfað við flokkun og söfnun endurvinnsluefna frá árinu 1984 og vinnur með fyrirtækjum, sveitarfélögum og einstaklingum í endurvinnslu og umhverfisvænni úrgangsstjórnun með áherslu á að koma öllum þeim efnum sem falla til í viðeigandi farveg og aftur inn í hringrásarhagkerfið. Terra gerir viðskiptavinum sínum kleift að fylgjast með úrgangstölum og endurvinnsluhlutfalli í rauntíma.



 



Bifreiðastöð ÞÞÞ hefur starfað við flutninga frá 1927 og hefur víðtæka reynslu og þekkingu á því sviði. ÞÞÞ hefur þjónustað einstaklinga, fyrirtæki, sveitarfélög og ríki og veitt persónulega þjónustu og leggur mikið upp úr þjónustulund við sína viðskiptavini. Höfum uppá að bjóða flest öll þau tæki sem til þarf til flutninga, frá sendibílum uppí trailera ásamt því að vera með 3 kranabíla ásamt fleirum tækjum á okkar snærum.