Sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, Lucie Samcová – Hall Allen, ásamt fylgdarliði, heimsótti Þróunarfélag Grundartanga þriðjudaginn 3. október s.l.
Guðjón Steindórsson framkvæmdastjóri segir að Þróunarfélag Grundartanga þrói nýja vaxtarmöguleika með grænum iðngarði byggðum á hringrásarhugsun. Umhverfisáhrif verði lágmörkuð, auðlindanotkun minnki og losun óæskilegra efna. Ávinningur sé auk þess meiri hagsæld, auknar tekjur, sparnaður og lægri framleiðslukostnaður.
Þann 11. maí síðastliðinn skrifuðu eigendur Þróunarfélags Grundartanga og fyrirtækin sem starfa á Grundartangasvæðinu undir viljayfirlýsingu um uppbyggingu græns iðngarðs með hringrásarhugsun á Grundartanga og fór viðburðurinn fram hjá Norðuráli á Grundartanga.
Á Grundartanga veita 20 stór og smá iðn- og þjónustufyrirtæki um 1.100 manns atvinnu að jafnaði. Að auki má rekja um 2.100 afleidd störf til starfseminnar á svæðinu. Þetta samfélag fyrirtækja er langstærstu vinnuveitendur Hvalfjarðarsveitar og Akraness.