Björt framtíð Grundartanga

Eftir Björgvin Helgason og Ólaf Adolfsson
Björgvin er oddviti Hvalfjarðarsveitar og Ólafur er bæjar…
Eftir Björgvin Helgason og Ólaf Adolfsson
Björgvin er oddviti Hvalfjarðarsveitar og Ólafur er bæjarfulltrúiá Akranesi og formaður Þróunarfélags Grundartanga.

 

Það voru góð tíðindi er Norðurál náði nýjum raforkusamningi á dögunum. Samhliða var tilkynnt um 15 milljarða króna viðbótarfjárfestingu á Grundartanga. Mun fyrirtækið byggja nýjan steypuskála til framleiðslu á virðisaukandi sérvöru sem styrkir mjög samkeppnisstöðu þess. Framkvæmdin mun tímabundið skapa meira en 100 störf og önnur 40 framtíðarstörf í kerskála. Það styrkir Grundartanga enn frekar sem öflugt atvinnusvæði.

Norðurál er eitt af 20 stórum og smáum iðn- og þjónustufyrirtækjum á Grundartanga. Á svæðinu sækja um 1.100 manns atvinnu og að auki má rekja önnur 2.100 störf til rekstursins. Þetta samfélag fyrirtækja er langstærstu vinnuveitendur Hvalfjarðarsveitar og Akraness. Tvö stærstu fyrirtækin, Norðurál og Elkem, greiða í laun og þjónustu um 20 milljarða á ári til samfélagsins.

Þetta öfluga atvinnusvæði Grundartanga hafa fyrirtæki og sveitarfélög byggt upp sameiginlega. Til tryggingar á framþróun svæðisins enn frekar var Þróunarfélag Grundartanga stofnað 2016. Að því standa Hvalfjarðarsveit, Borgarbyggð, Skorradalshreppur, Akraneskaupstaður, Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir. Félaginu er ætlað að sameina krafta sveitarfélaganna, Faxaflóahafna og fyrirtækja til að mynda eitt öflugt atvinnusóknarsvæði og þróa nýja vaxtarmöguleika.

Grænt iðn- og atvinnusvæði

Félagið hefur staðið fyrir fjölbreyttum þróunar- og framfaramálum. Þar má nefna skoðun nýrra umhverfisvænna orkukosta, orkuendurvinnslu, hitaveitu og framleiðslu nýrra orkugjafa á borð við rafeldsneyti. Þá hafa ylrækt og fiskeldi verið skoðuð. Markmiðið er að fullnýta virðiskeðju framleiðslunnar, forðast sóun verðmæta og byggja upp grænna iðn- og atvinnusvæði í hringrásarhagkerfi í anda sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Ráðist hefur verið í skógrækt með „grænum trefli“ við Grundartanga, unnið að betri tengingu við umhverfisvænar almenningssamgöngur, og kynning efld á svæðinu. Að auki hefur félagið hvatt til samstarfs um auknar umhverfisrannsóknir og umhverfisvöktun. Fyrir er Hvalfjörður líklega best vaktaða svæði landsins sem tekur til um 100 mæliþátta í lofti, sjó og ferskvatni, húsdýrum og gróðri. Vöktunin er framkvæmd af óháðum aðilum og er hluti mælingannaaðgengilegur í rauntíma á vef Umhverfisstofnunar.

Nýsköpunar- og þróunarklasi
Þróunarfélagið byggir á sýn um uppbyggingu nýsköpunar- og þróunarklasa á Grundartanga. Þar verður fjölbreytt starfsemi ólíkra fyrirtækja, stofnana og sem tengist svæðinu, til umbóta, samstarfs og þróunar. Metnaðurinn liggur í sjálfbærri verðmætasköpun, lágmörkun vistspors og bættrar umhverfisverndar.

Rafeldsneyti og hitaveita
Tvö þróunarverkefni undir merkjum klasans ber að nefna:

Nú í sumar kynnti félagið vandaða skýrslu um möguleika á framleiðslu rafeldsneytis, en það er umhverfisvænt eldsneyti sem byggir á þekktri tækni um framleiðslu vetnis með endurnýjanlegri raforku og glatvarma frá Elkem, ásamt því að nýta koldíoxíð sem þegar er til staðar í vistkerfi  svæðisins. Þannig verði dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, orkuskipti efld og stuðlað að kröftugri nýsköpun. Með nýtingu þess mikla varma sem verður til í starfsemi á Grundartanga væri mögulegt að byggja upp hitaveitu fyrir svæðið og nágrenni þess. Nú er unnið að undirbúningi og rannsóknum á slíkri hitaveitu. Takist samningar um verkefnið og tæknilegar áskoranir leystar er fyrir séð að hitaveitan gæti tekið til starfa á næstu árum.

Þróunarfélagið byggir á þeirri trú að jákvæður ábati reksturs og fjárfestinga styrki samkeppnishæfni fyrirtækja á svæðinu. Hann skapar öruggara atvinnuumhverfi, styður við bætta þjónustu sveitarfélaga svæðisins og skapar aukið mótvægi við loftslagsbreytingar. Það er vegferð sjálfbærni fyrirtækja og samfélags. Því er sóknarhugur í þeim sem standa að uppbyggingu atvinnusvæðisins á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. ágúst 2021.