Græn atvinnusköpun

Björgvin Helgason
Björgvin Helgason

Það voru góð tíðindi er Norðurál lauk nýlega raforkusamningum og tilkynnti um 15 milljarða króna viðbótarfjárfestingu á Grundartanga. Sú framkvæmd mun tímabundið skapa um 100 störf og önnur 40 til framtíðar og styrkja samkeppnisstöðu Grundartanga sem öflugs atvinnusvæðis.

Á Grundartanga veita 20 stór og smá iðn- og þjónustufyrirtæki um 1.100 manns atvinnu að jafnaði. Að auki má rekja um 2.100 afleidd störf til starfseminnar á svæðinu. Þetta samfélag fyrirtækja er langstærstu vinnuveitendur Hvalfjarðarsveitar og Akraness. Tvö stærstu fyrirtækin, Norðurál og Elkem Ísland, greiða laun og kaupa þjónustu fyrir meira en 20 milljarða króna á ári.

Þetta öfluga fyrirtæki og sveitarfélögin hafa byggt upp þetta atvinnusvæði í sameiningu. Til frekari framfaraskrefa var Þróunarfélag Grundartanga stofnað 2016. Að því standa Hvalfjarðarsveit, Borgarbyggð, Skorradalshreppur, Akraneskaupstaður, Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir. Félagið sameinar krafta sveitarfélaganna, Faxaflóahafna og fyrirtækja á atvinnusvæðinu til að skapa öflugt atvinnusóknarsvæði og þróa nýja vaxtarmöguleika.

Meðal fjölbreyttra þróunar- og framfaramála má nefna skoðun á nýjum umhverfisvænum orkukostum, orkuendurvinnslu, hitaveitu og framleiðslu nýrra orkugjafa á borð við rafeldsneyti. Metnaðarfull markmið hafa verið sett um fullnýtingu í virðiskeðju í framleiðslu þar sem koma á í veg fyrir sóun verðmæta. Byggja á upp grænt iðn- og atvinnusvæði sem sækir fyrirmynd í hringrásarhagkerfi.

Ráðist hefur verið í skógrækt með „grænum trefli“ á svæðinu, unnið að betri tengingum við umhverfisvænar almenningssamgöngur og kynning aukin á svæðinu. Einnig hefur félagið hvatt til samstarfs um auknar umhverfisrannsóknir og umhverfisvöktun til að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfi og lágmarka vistspor. Ofangreind mynd er hluti af stærri sýn um uppbyggingu nýsköpunar- og þróunarklasa á Grundartanga. Móta á klasa fjölbreyttrar starfsemi ólíkra fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga sem tengjast svæðinu, til umbóta og þróunar. Markmiðið er að með sókn sé hægt að auka verðmætasköpun en auka umhverfisvernd, og útvíkka samstarf innan og utan þessa kröftuga atvinnusvæðis í Hvalfjarðarsveit.

Höf:
Björgvin Helgason
Oddviti Hvalfjarðarsveitar.